154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:14]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með starfið og bjóða hana velkomna til starfa á nýjan leik. Að því sögðu langar mig til að eyða tíma mínum núna í að ræða um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og þá kannski stöðu Reykjavíkurborgar innan sjóðsins. Reykjavíkurborg höfðaði mál gegn ríkinu fyrir að standa ekki við framlag til borgarinnar varðandi grunnskólabörn og börn af erlendum uppruna; þetta var vegna framlaga frá 2015–2019, að ég held. Málið var höfðað 2020, dómur féll 2023. Niðurstaðan úr því varð sú að ríkið tapaði. Reykjavíkurborg voru dæmdar skaðabætur upp á 3,5 milljarða og væntanlega eru það einhverjir 5 milljarðar í heildina ef málskostnaður er talinn með og vextir.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvar þetta mál sé statt. Ég held reyndar að fyrrverandi innviðaráðherra hafi brugðist við með látum og áfrýjað. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra — ég ætla að gera ráð fyrir að Reykjavíkurborg njóti sannmælis og fái þessa fjármuni sem hún var svikin um á þessum tíma — hvort hún ætli ekki að bregðast við og borga þessar upphæðir. Það er bara eðlileg og sanngjörn krafa miðað við að þetta sé hugsað til sveitarfélaga sem eru að sinna umræddum verkefnum(Forseti hringir.) en jafnframt þar sem Reykjavíkurborg er að stórum hluta að borga fjármuni inn í jöfnunarsjóðinn.